Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit eiginlega ekki alveg í hvaða fílabeinsturni hv. þingmaður er eða hver raunveruleiki hans er. Er hann að tala um landið þar sem misskipting er minnst, þar sem tekjujöfnuður er hvað mestur? Íslenska þjóðin hefur það einna best allra þjóða í heiminum. Nú veit ég að hv. þingmaður þekkir þennan raunveruleika vel þótt hann hafi ákveðið að láta í ræðu sinni hér áðan líta út fyrir að svo væri ekki. Þannig að ég spyr hv. þingmann: Er þetta í alvöru lýsing á íslensku samfélagi sem hv. þingmaður fór með hér áðan? Er það ekki þannig, virðulegur forseti, að íslenska þjóðin hefur það heilt yfir mjög gott? Við sem hér erum inni ættum kannski frekar að sameinast um það að finna einmitt þá fáu sem því miður hafa það ekki nógu gott og einblína á raunverulegar aðgerðir til að bæta hag þeirra.