Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður segir: Ekki benda á aðra. Og spyr hvað ríkisstjórnin ætli að gera. Þá þurfum við kannski aðeins að velta fyrir okkur fyrst hvert vandamálið er áður en ráðist er í aðgerðir. Vandamálið hvað húsnæðismarkaðinn varðar er skortur á framboði. Það er í raun alveg sama hvað ríkið myndi ákveða að setja mikið af peningum í málaflokkinn, ef ekki er hægt að byggja íbúðir vegna þess að ekki eru til lóðir þá skilar það engum árangri. Ég sem er í stjórnmálum segi: Ég ætla að horfa á hvert vandamálið er og ég ætla að reyna að vinna að lausnum á því. Þá horfi ég til kollega minna í sveitarstjórnum og brýni þá áfram í því að það þurfi að vera framboð á lóðum svo að hægt sé að byggja. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það þarf líka að fara í ákveðnar aðgerðir er lúta að félagslegri hluta húsnæðismarkaðarins. Þar er starfshópur að störfum. Það hefur líka verið sagt að ákveðið fjármagn sé sett inn í varasjóð til að bregðast við því þegar þær tillögur koma fram. Það munu örugglega meiri fjármunir koma fram í þennan lið og það er hluti af lausninni. En það er bara alls ekki svo að það leysi vandann á húsnæðismarkaði. Mér finnst því miður mörgum þingmönnum, alveg sama hvar í flokki þeir eru, oft hætta til að tala um þennan ofboðslega mikilvæga markað eins og þetta sé bara félagslegt úrlausnarefni, eins og það séu ekki öll þessi verktakafyrirtæki þarna úti, allir þessir iðnaðarmenn, öll þessi tæki, öll þessi fjárfesting sem þarf að fara í. Þetta sé bara leyst með einhverju ríkisvaldi og ríkispeningum. Það er bara ekki svo. Langstærsti hluti af íbúðamarkaði á Íslandi er þannig að fólk á sínar eignir, það eru fyrirtæki úti í bæ sem byggja þessar íbúðir og þannig viljum við hafa það áfram. En við viljum að allir hafi þak yfir höfuðið og allir hafi tækifæri til að fjárfesta eða leigja íbúðir við hæfi. Þá þarf með einhverjum hætti að bregðast við félagslega hlutanum. Það mun vera gert. Um leið og tillögur starfshópsins liggja fyrir þá fara einhverjir fjármunir í það. (Forseti hringir.) En stóra vandamálið er aftur á móti framboð, það þarf að auka framboðið.