Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:08]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það vildi nú reyndar þannig til að ég vildi koma hingað upp til að spyrja hæstv. innviðaráðherra nánar út í húsnæðismálin og kannski getum við fengið einhver svör hér. Eins og flestir vita þá hefur verið gert svokallað rammasamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu húsnæðis. Ástæða er til að fagna því en ég skil það svo að þetta samkomulag sé ófjármagnað, alla vega enn sem komið er og vil því nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann og ríkisstjórnin hyggist fjármagna samkomulagið, af því að það segir sig sjálft að það verður lítið úr fyrirætlunum ríkisins og sveitarfélaganna ef það er ófjármagnað um langan tíma a.m.k. Hvenær á það að gerast og hversu mikið hyggst ríkisstjórnin leggja til þessa samkomulags? Ég hef lesið fréttir af þessu máli á þá leið að hér sé búið að skapa mjög jákvæðar væntingar til uppbyggingar húsnæðis og ég skora á, eða vænti þess hreinlega, að ríkisstjórnin og hæstv. innviðaráðherra standi undir þeim væntingum af því að hér er um að ræða, eins og við öll vitum, grundvallaratriði í velferð samfélagsins og fólksins sem byggir þetta land. Því spyr ég: Hvernig og hvenær verður rammasamkomulagið fjármagnað?