Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:09]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda málefnið og leiðinlegt að við gátum ekki farið yfir aðdragandann. Málið er nokkuð þekkt, ég heyrði það í gærkvöldi að menn eru orðnir leiðir á kynningum á þessu máli í fjölmiðlum en staðreyndin er þessi að við fólum HMS það verkefni að tala við sveitarfélögin. Á sama tíma erum við að vinna að fjárlögunum og það hefur komið fram að í forsendum fjárlagagerðarinnar og þeirri vinnu þá reiknuðum við einfaldlega með að við myndum þurfa að taka ákveðna fjármuni sem eru núna í varasjóði. Það hefur verið sagt að þeir bíða þar, enda eru þar umtalsverðir fjármunir til reiðu á næsta ári. Í vinnunni næstu vikur, þá með þingnefndunum, munum við geta komið inn með upplýsingar um hvernig sá gangur er og í síðasta lagi við 2. umr. fjárlaga komið með tillögu um að lækka varasjóðinn innan ramma ársins og færa ákveðna fjármuni yfir til þess að fjármagna stofnframlögin í almennu íbúðirnar, í hlutdeildarlán þar sem það á við, hugsanlega yfir í félagslega íbúðakerfið þar sem við höfum lofað að 5% af íbúðunum verði til að takast á við m.a. húsnæðisskort hjá fötluðu fólki og fleiri hópum. Allt í allt höfum við verið að tala um að af þessum 4.000 íbúðum gætu svokallaðar hagkvæmar íbúðir verið um 30%, sem væru þá fjármagnaðar með stofnframlögum eða með öðrum hætti af ríkinu að einhverju leyti og svo 5% til viðbótar. Það eru 35%. Þetta eru þá 1.400 íbúðir ef ég kann enn þá svolítið í hugarreikningi og menn geta alveg áttað sig á því að stærðargráðan er allnokkur umfram það sem er birt núna í fjárlögum og við höfum ítrekað verið að flagga að til standi að gera í samstarfi við þingið.