Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:14]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að við sinnum þessari félagslegu blöndun í íbúðarhúsnæði í því skyni að tryggja þetta samfélag sem við öll viljum vera hluti af þar sem allir eiga jöfn tækifæri og búa við svipuð kjör þó að þau geti verið mismunandi innan þess ramma. Hvernig hyggjumst við leitast við að gera þetta? Jú, hugmyndin á bak við samninga við einstök sveitarfélög er svolítið að við komum með eitthvað að borðinu sem er þá loforð um fjármagn úr ríkissjóði til að styðja við uppbyggingu á félagslegu húsnæði og almenna húsnæðinu, stofnframlög og slíkt. Á móti getum við þá gert kröfu um slíkt og sveitarfélögin kæmu þá til móts við okkur hvað það varðar. Einnig hefur verið unnið samkvæmt starfshópi sem starfaði á vegum Þjóðhagsráðs í vor. Þar voru hugmyndir um að við gætum jafnframt sett inn lagabreytingar, til að mynda svokallað Carlsberg-ákvæði sem er nú þekkt sem slíkt, þar sem tiltekið hlutfall af íbúðum á hverju deiliskipulögðu svæði þurfi að vera íbúðir sem eru þá með þessum hætti. Það mætti vel hugsa sér að það yrði hluti af vinnu vetrarins að setja slíkt ákvæði inn, ekki síst ef það gengur illa að ná samkomulagi við sveitarfélögin með frjálsu samtali og jafnvel væri hægt að setja þar eitthvert lágmark. Heimildin væri kannski hærri þannig að sveitarfélögin hafi líka tæki þegar þau eru að tala við verktakana eða þá sem eru að skipuleggja sín lönd. Þetta er svona blanda af ýmsu en hugmyndin á bak við samkomulag er einmitt að báðir aðilar fái eitthvað út úr því.