Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:23]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur vildi gjarnan að bæði Reykjanesbrautin og ýmis önnur verkefni sem hafa verið færð aftar í röðina, þó að þau séu komin á samgönguáætlun eru þau komin talsvert aftar, væru öll farin í gang. En eins og hv. þingmaður veit eru það fjármunirnir sem stýra ferð. Þegar búið er að skuldbinda stór verk — og það eru óvenjulega mörg stór verk í gangi — og síðan kemur í ljós að öll verk halda áfram að hækka kemur að lokum að þeim tíma að ekki er hægt að bjóða út næsta verk vegna þess að allir fjármunirnir eru skuldbundnir. Það hefði þá alla vega verið sérstök ákvörðun ef hv. þingmaður er að tala um að ráðherra hefði átt að stoppa eitthvert annað verk til að taka fjármuni úr og færa í verkefni sem ekki var fjármagnað. Það væri eitthvað nýtt og ég held að það hefði kallað á að þingið tæki það samtal, ég myndi ekki vilja taka slíka ákvörðun sjálfur.

Við erum að reyna að gera eins mikið úr þeim fjármunum sem við fáum á hverjum tíma til að byggja sem hraðast upp. Eftirspurnin er mikil og þörfin er gríðarleg og ég vænti góðs samstarfs við hv. þingmann sem og formann umhverfis- og samgöngunefndar og þingið allt við að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á á síðustu árum, að byggja upp vegi sem aldrei fyrr og fjármagna þá. Það þarf í það minnsta tvær nefndir til og allan salinn að lokum.