Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:25]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja hér á að ræða húsnæðismálin, ekki síst þann skort á framboði íbúða sem hefur einkennt húsnæðismarkaðinn að undanförnu og þrýst húsnæðisverði upp í hæstu hæðir. Það sorglega er að þessi vandi er ekki aðeins heimatilbúinn heldur hefur hann lengi verið fyrirsjáanlegur. Frá bankahruni hefur uppbygging íbúða ekki náð að halda í við þörfina og allan þann tíma hafa Hagsmunasamtök heimilanna varað við afleiðingum þess. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun benti á það í skýrslu árið 2019 að uppsöfnuð þörf væri fyrir 4.000–6.000 íbúðir og samkvæmt skýrslu árið 2021 hafði sá fjöldi ekkert lækkað. Það var svo ekki fyrr en í fyrradag að loksins var kynntur rammasamningur milli ríkis og sveitarfélaga um húsnæðisátak árin 2023–2032. Svo fáum við nú í hendurnar fjárlagafrumvarp þar sem framlög til húsnæðismála eru beinlínis lækkuð. Það sem snýr að húsnæðisátakinu er meira og minna óútfært og nánari útfærslu varpað yfir á 2. umr. um frumvarpið. Sú útfærsla mun því ekki hljóta þrjár umræður eins og er þótt það sé stjórnarskrárbundið skilyrði fyrir því að samþykkja megi lagafrumvarp. Maður skilur ekki alveg hvers konar vinnubrögð þetta eru og hvers vegna svona seint er í rassinn gripið. Af hverju er þessi uppbygging ekki fyrir löngu hafin þegar þörfin hefur legið fyrir svo árum skiptir?

Svo langar mig örlítið að koma inn á Sundabraut en ég sakna þess að sjá ekki fjallað um hana í frumvarpi til fjárlaga. Í umfjöllun um samgöngumál er á einum stað minnst á að undirbúningur Sundabrautar fari í vinnsluferli árið 2023. Er það allt og sumt? Ég hélt að undirbúningur Sundabrautar hefði verið í vinnsluferli undanfarin 40 ár. Hvers vegna er ekki lögð meiri áhersla á að ljúka við hönnun, umhverfismat og útboð sem allra fyrst, t.d. að ákveða hvort það eigi að vera brú eða göng eða hvað á að vera? Það liggur fyrir að um er að ræða verkefni sem skilar samfélaginu hundruðum milljarða í ábata með innri vexti upp á 12%. Er það verðbólgan sem tefur fyrir? Er Sundabraut eitt þeirra verkefna sem þarf að bíða til að sporna gegn þenslu?