Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:33]
Horfa

Valgerður Árnadóttir (P):

Frú forseti. Það er ekki að sjá í fjárlögum eða stefnu ríkisstjórnarinnar að hér eigi að byggja upp vistvæna ferðamáta. Hvar er framtíðarsýnin? Jafnvel grænþvottur ríkisstjórnarinnar, sem snýr að því að rafvæða bílaflotann, á undir högg að sækja þar sem skattahækkanir á rafbíla eru boðaðar, hækkanir sem gera það enn erfiðara en áður fyrir hinn almenna borgara að velja sér vistvæna kosti. Margumrætt er hversu dýrt er að halda við og leggja vegi á landsbyggðinni en á sama tíma er engin hagræðing hvað varðar þungaflutninga og almenningssamgöngur. Græn orkuskipti ættu að fela í sér lausnir á borð við raflest sem flutt gæti bæði vörur og fólk, það myndi einnig minnka álagið á bundið slitlag og minnka svifryksmengun til muna. Bæði íbúar í landinu og ferðamenn kalla á bættar almenningssamgöngur á landsbyggðinni en eins og er neyðast ferðamenn til að leigja sér bíla eða kaupa sér dýrar sérferðir til að sjá helstu náttúruperlur. Það er lítið frelsi í ferðamáta og óvanir bílstjórar setja sjálfa sig og aðra í hættu í umferðinni. Að byggja upp vistvæna ferðamáta eins og raflest er kostnaðarsamt í byrjun en borgar sig þegar lengra dregur, enda mikilvægt að hafa langtímasýn og markmið í svo mikilvægum flokki. Hver er langtímasýnin þegar kemur að samgöngum?