Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það hefur verið augljós skortur á húsnæði á Íslandi undanfarin ár. Í skýrslu eftir skýrslu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur vænt íbúðaþörf komið fram, sem vissulega var vanmetin og var uppfærð nýlega. En þrátt fyrir það var fyrri ábendingum um skort á húsnæði ekki mætt, það náðist ekki að vinna upp í þann fjölda sem sagt var að vantaði. En nú eru komnar yfirlýsingar um að byggja þurfi 20.000 íbúðir á næstu fimm árum og 35.000 á næstu tíu árum, sem er gott og blessað. Ég klóra mér dálítið í hausnum yfir því af hverju slíkar yfirlýsingar komu ekki fyrr fram og af hverju ekki var farið fyrr í nákvæmlega þær áætlanir sem á að fara í núna.

Þá set ég það aðeins til hliðar að ekki er komin útfærsla á því í fjárlagafrumvarpinu heldur einhver ótilgreind upphæð í varasjóð, út af því að einhver nefnd er í gangi. Ég átta mig ekki á því, miðað við að þetta hefur verið gegnumgangandi í mörg ár, við höfum vitað af þessum skorti, af hverju það er ekki fyrr en núna, þegar íbúðaverð er komið í hæstu hæðir eftir allar eftirspurnaraðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem á að fara að byggja. Er það einhvers konar efnahagsaðgerð að skrúfa upp verðið og koma inn með íbúðir þá, en þá er efnahagsreikningurinn orðinn betri til að vinna með skulda- og eignalega séð? Eða hvað gerir það að verkum að núna er verið að reyna að leggja fram áætlun um það hvernig eigi að (Forseti hringir.) mæta þessum íbúðaskorti en ekki í upphafi síðasta kjörtímabils þegar nákvæmlega sömu vandamál voru til staðar?