Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:42]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir skýringarnar á þeim málefnasviðum sem undir hann heyra. Með síðasta forsetaúrskurði fluttust skipulagsmál, þar með talin Skipulagsstofnun, til eflds innviðaráðuneytis. Ég hef sérstakan áhuga á samspili skipulagsgerðar sem er á ábyrgð sveitarfélaga og stuðnings opinberra aðila sveitarfélögunum til handa við að framkvæma hin ýmsu lagaákvæði. Mér er tvennt efst í huga, annars vegar flokkun landbúnaðarlands með tilliti til hæfni til ræktunar og hins vegar skrá yfir vegi í náttúru Íslands.

Þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, nú matvælaráðuneyti, gaf út leiðbeiningar um flokkun landbúnaðarlands í júní á síðasta ári. Leiðbeiningarnar voru unnar í samstarfi ráðuneytisins, Skipulagsstofnunar og Landbúnaðarháskóla Íslands og byggjast á ákvæðum jarðalaga. Markmiðið með leiðbeiningunum er að vernda til framtíðar það land sem hentar best til matvæla- og fóðurframleiðslu. Að auki getur flokkunin gagnast við ákvarðanir um ræktun iðnaðarjurta. Niðurstöðum flokkunarinnar er ætlað að nýtast sveitarfélögunum við gerð aðalskipulags enda er þeim skylt að flokka land með tilliti til ræktunarmöguleika. Þá tekur landsskipulagsstefna enn fremur til flokkunar landbúnaðarlands við skipulag í dreifbýli. Borið hefur á því að landstærri sveitarfélög eigi í erfiðleikum með að framkvæma flokkun landbúnaðarlands með tilliti til hæfni ræktunar. Í ljósi markmiðs 3 í kafla 31.20 um skipulagsmál í frumvarpi að fjárlögum ársins 2023, um að auka stuðning við sveitarfélög við skipulagsgerð og afgreiðslu skipulagstillagna langar mig að spyrja ráðherra: Telur hann að Skipulagsstofnun, og eftir atvikum Skipulagssjóður, hafi næga burði til að styðja við sveitarfélögin við að framfylgja nýjum lagaákvæðum? Hvernig telur ráðherrann að styðja megi sveitarfélögin svo þau nái að uppfylla mikilvæg markmið jarðalaga?