Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:54]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég hef hér undir höndum tölvupóst frá verkefnastjóra Vegagerðarinnar þar sem hann segir að nú sé reiknað með að auglýsa verkið Reykjanesbraut, Krýsuvík og Hvassahraun í lok ágúst og opna tilboð fyrstu vikuna í október. Þetta er staðfest af verkefnastjóra frá Vegagerðinni. En síðan kemur í ágúst, nokkru seinna: „Vinna við undirbúning verkefnisins Reykjanesbraut er langt komin en þó ekki lokið. Áhöld eru uppi um hvenær framkvæmdir geta hafist eftir síðustu breytingar á fjárframlögum til næsta árs.“ Þarna er búið að staðfesta að þetta sé á dagskrá en síðan er þetta skotið út af borðinu tveimur mánuðum seinna þannig að einhver ákvörðun hefur verið tekin um það að skjóta þetta verkefni upp í loftið og út af borðinu. Svo sé ég þess ekki stað, í lista yfir tiltekin verkefni, að Reykjanesbrautin sé á dagskrá á næstu árum. Ég sé það ekki.

Ráðherrann nefndi jöfnunarsjóðinn, innspýtingu upp á 2 milljarða. Þá langar mig líka að nefna hér sóknaráætlanir landshluta. Hann nefndi þær en nefndi ekki töluna. Þar er verið að skera niður, sýnist mér, framlög um 120 milljónir á árinu 2023, 127 milljónir 2024, 135 milljónir á árinu 2025 eða samtals 382 milljónir. Sveitarfélögin hafa fagnað þessu átaki, sóknaráætlun, verið mjög ánægð með þetta en ég er ekki viss um að sveitarfélögin verði jafn ánægð núna þegar þau lesa þetta.