Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér við þessa umræðu. Í fyrri spurningu minni langar mig að koma inn á gjaldtökumál. Ef ég skil þetta rétt þá er þetta í raun þríþætt gjaldtaka, sértæk, sem verið er að horfa til og forma núna. Það eru jarðgöng, sem hæstv. ráðherra hefur nefnt; það eru flýti- og umferðargjöld í Reykjavík í tengslum við Betri samgöngur ohf. og síðan er það sértæk gjaldtaka í tengslum við samvinnuverkefnalögin, sex verkefni sem þar eru inni, PPP. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort lagt hafi verið mat á hver heildargjaldtakan undir þessum þremur þáttum yrði að jafnaði árlega fyrstu árin eftir að allt væri komið af stað, hver heildargjaldtakan yrði undir þessum þremur liðum, jarðgangagjaldtakan, flýti- og umferðargjöld í Reykjavík og samvinnuverkefnin.

Þó að þessi mál komi á endanum væntanlega fram í gegnum hæstv. fjármálaráðherra þá er þetta það nátengt málaflokki ráðherrans að ég leyfi mér að spyrja hann um þetta. Jafnframt langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvaða áhrif þau sjónarmið sem hann talaði mjög skýrt fyrir, að gjaldtaka í göngum kæmi ekki til greina nema önnur leið væri fær fyrir vegfarendur, hafa á mögulega gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum og Óshlíðargöngum eða Bolungarvíkurgöngum, svo að dæmi séu tekin.