Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:00]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er gaman að vera í þessu samtali við þingsalinn. Varðandi fyrirhugaða gjaldtöku þá er það nú þannig að í samgönguáætlun, sem var samþykkt í þessum sal — og sumar hugmyndirnar komu, held ég, þegar hv. þingmaður var formaður umhverfis- og samgöngunefndar, þar á meðal hugmyndin um að taka upp gjald í öllum jarðgöngum. Samgönguráðherra, sem heitir innviðaráðherra í dag, hefur m.a. verið að vinna að samþykkt Alþingis á tillögum sem komu úr þessum sal, úr þessari ágætu nefnd hv. þingmanns á þeim tíma, það hefur verið unnið að því síðan. Það sama gildir um höfuðborgarsáttmálann, hugmyndir sem síðan runnu inn í samgönguáætlun og voru samþykktar í þessum sal og einnig hugmyndir um gjaldtöku af einstökum verkefnum sem líka var samþykkt í þessum sal að færu í ákveðin verkefni. Við hjá framkvæmdarvaldinu erum að vinna að útfærslu á þessu. Við erum ekki komin lengra en svo að við sjáum fyrir okkur að þarna væri möguleiki að taka upp gjaldtöku almennt. Hún þarf hins vegar að vera sanngjörn og hún þarf að vera skilvirk. Hún þarf að taka tillit til ólíkra þátta eins og vinnusóknarsvæði, umferðaröryggis og margra annarra þátta. Hún byggir á dálítið annarri nálgun en það sem hv. þingmaður var að segja að sá sem hér stendur hafi fullyrt að væri hluti af samvinnuleiðarverkefnunum; að menn þyrftu að hafa aðra leið ekki bara í gegnum jarðgöng heldur líka yfir brýr eða eitthvað slíkt. Það var hluti af þeim verkefnum.

En það er eitt sem hefur alltaf gleymst í þessari umræðu. Við erum að skipta um kerfi. Það er verið að lækka eldsneytisgjöld á móti. Það er einfaldlega verið að breyta um gjaldtöku. Þess vegna tekur þessi vinna einhvern tíma og verður án efa fjallað látlaust um hana hér í þinginu, af nefndum þingsins, og það er nauðsynlegt áður en ákvörðun verður tekin enda eru (Forseti hringir.) sumar hugmyndirnar komnar frá þinginu og allar tillögurnar sem framkvæmdarvaldið er að vinna eftir eru samþykktar af þinginu.