Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:13]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra. Við þurfum að hafa okkur öll við ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og loftslagsmarkmiðum yfir höfuð til þess að koma í veg fyrir hamfarahlýnun. Mig langar að nota þetta tækifæri til að ræða lítillega um álit loftslagsráðs frá 9. júní 2022, fyrir þremur mánuðum eða svo. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í tilefni af viðvörun IPCC“ — þ.e. loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna — „ítrekar loftslagsráð fyrri áskorun til íslenskra stjórnvalda um að framfylgja af mun meiri festu þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar og hraða frekari stefnubreytingum og aðgerðum í loftslagsmálum. Markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 eru óljós og ófullnægjandi. Nauðsynlegt er að stjórnvöld skýri og útfæri þessi markmið nánar.“

Við sem þekkjum aðeins til í íslenskri stjórnsýslu og þekkjum hvernig vandaðir vísindamenn taka til orða vitum að þegar þau láta frá sér fara álit sem þetta þá er okkur vandi á höndum. Ég vil því nota fyrri fyrirspurn mína hér í dag til að spyrja hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: Hvernig hefur hann brugðist við áliti loftslagsráðs? Hvernig hyggst hann ná þeim markmiðum, auðvitað í samstarfi við aðra, fyrir 2030 sem Ísland hefur sett sér? Er hægt að lifa við það að loftslagsráð telji þau bæði óljós og ófullnægjandi?