Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:15]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er mikilvægt að hafa gott loftslagsráð sem rýnir í það sem við erum að gera og segir skýrt hvað má bæta og ég hef ekkert farið í grafgötur með það að ég er sammála loftslagsráði. Ég tel mikilvægt að efla og styrkja loftslagsráð í störfum sínum. Hvað erum við búin að vera að gera? Við höfum unnið sleitulaust að því að ná markmiðunum. Við rufum kyrrstöðu sem hefur verið í níu ár. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var eitthvað að hjálpa til þar, en það er nauðsynlegt til að við getum náð árangri í loftslagsmálum. Það er það sem ríkisstjórnin gerði, hún rauf kyrrstöðuna og það er grunnur að árangri. Það er ekki lítið mál því það var í raun ekki bara 3. áfangi rammaáætlunar sem fór í gegn heldur sá 4. líka, með frumvarpinu um einföldun regluverks þegar kemur að stækkun virkjana. Það var líka frumvarp sem einfaldaði mjög að fólk geti nýtt sér vistvænni, umhverfisvænni orkugjafa og geti sparað orku. En síðan er samfelld vinna á öllum sviðum til þess að koma til móts við þessi sjónarmið. Ég mun fylgjast spenntur með því hvernig stuðningi hv. þingmanna, sem tala um loftslagsmálin og segjast vera metnaðarfull í þeim málaflokki, verður háttað þegar að þessu kemur. Það hefur ekkert vantað upp á það að þessi ríkisstjórn hafi, frá því að hún tók við, unnið markvisst að því að bæta úr því sem þarna er tilgreint og ég er sammála.