Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:17]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Já, það var vissulega mjög mikilvægt að afgreiða 3. áfanga rammaáætlunar í vor en það eitt dugar ekki eins og við vitum. Ég er glöð að heyra að ráðherrann sé sammála því sem stendur í álitinu frá því í júní, en það er annað sem loftslagsráð bendir á. Það er talað um að framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar sé ómarkviss. Því spyr ég ráðherra: Hefur hann brugðist við því? Hvernig gengur endurskoðunin? Ef ég man rétt þá er verið að endurskoða aðgerðaáætlunina. Ef við fylgjum ekki okkar eigin aðgerðaáætlun náum við væntanlega ekki þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett og ég vona að allir sem sitja í þessum sal séu sammála um að við þurfum að ná þeim. En við verðum að gera það þannig að það gangi. Það vill þannig til að hæstv. ráðherra ber ábyrgð á því sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að við náum þessum markmiðum, vissulega með stuðningi þeirra sem hér eru, en til þess þarf, ef ég skil álitið rétt, mun skipulagðari vinnubrögð, markvissari, skýrari, jafnvel víðtækari ef maður les í það. Ég les ekki mikla ánægju út úr þessu áliti með það hvernig til hefur tekist.

Rétt í lokin langar mig að bæta við einni laufléttri spurningu vegna 800 millj. kr. sem fara til að kaupa losunarheimildir vegna skuldbindingar okkar út af Kyoto. Getur hæstv. ráðherra rifjað það upp fyrir okkur hvers vegna við þurfum að greiða þessar 800 millj. kr.?