Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:19]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir fyrirspurnina sem er ítrekun á fyrri fyrirspurn. Ég vil aðeins setja hv. þingmann og þingheim inn í það hvernig við höfum verið að vinna að þessu. Það er auðvitað þannig að engin þjóð, mér vitanlega, er í þeirri stöðu að menn geti sagt að þeir séu alveg öruggir með það á hvaða leið þeir eru og að þeir muni ná þeim markmiðum auðveldlega. Þetta hefur aldrei verið gert áður í sögu mannkyns. Við erum að vinna á öllum sviðum. Eitt er losunarbókhaldið sem er eitthvað sem enginn fékk tilbúið af himnum ofan og við erum að vinna, rannsaka, skoða og læra af öðrum og í samvinnu við aðra. Það væri eitthvað að loftslagsráði ef þeir hefðu komið og sagt: Við erum búin að líta á þetta, þetta er svona fyrsta uppleggið og þetta er bara allt í toppstandi, þið þurfið ekki að hafa neinar áhyggjur. Þá væri loftslagsráð ekki að vinna vinnuna sína. Það sem við höfum lagt áherslu á er að fara fyrst í grunninn af því að við þurfum græna orku til að fara í orkuskipti og taka út bensín og dísil. Við höfum sömuleiðis samtal við atvinnulífið að geiranálgun vegna þess að þetta er fíll sem þarf að borða í bitum. Það er atvinnulífið sem mun framkvæma orkuskiptin — við þurfum að losna við 1,3 milljónir tonna CO2 á næstu sjö árum, það er á beinni ábyrgð Íslands — og við gerum það að norrænni fyrirmynd að taka hvern geira fyrir sig, að gerður sé samningur um það hvað ríki og sveitarfélög koma með og hvað atvinnulíf í viðkomandi atvinnugrein á að gera til að ná þessum árangri. Vegvísir í byggingariðnaðinum er nú fyrsta skrefið sem er til fyrirmyndar. Við þurfum að vinna með atvinnulífinu. Allt Stjórnarráðið þarf að setja loftslagsgleraugun á alla hluti, m.a. þegar kemur að fjárlögunum. Svo eru það sveitarfélögin. Ég og fráfarandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga höfum haft fasta fundi, og það er mikið samstarf milli ráðuneyta og sveitarfélaga, til að fara yfir þessi mál út af mikilvægi þeirra og hversu stór þau eru. Ég vona að við fáum tækifæri til að ræða þetta aðeins meira á eftir.