Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:22]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér eru til umræðu fjárlög fyrir árið 2023 sem bera vott um að verja eigi sterka stöðu en jafnframt sækja fram með skynsamlegum hætti. Það er nauðsynlegt því að eins og fram hefur komið er atvinnulíf hér í blóma og hagvöxtur eykst. Við erum hluti af stærri heild og okkar verkefni er að byggja upp sjálfbært atvinnulíf og samfélög sem ættu að blómstra ef okkur auðnast að ná jafnvægi milli þess að njóta og nýta auðlindir okkar af skynsemi. Okkur hefur auðnast að byggja upp öfluga raforkuframleiðslu sem nágrannaþjóðir okkar öfunda okkur af. Til að nýta raforkuna þurfum við líka að byggja upp áreiðanlegt dreifikerfi raforkunnar til að tryggja raforkuöryggi um allt land, en enn er þó nokkuð í land svo að kerfið sé í samræmi við áætlanir.

Á vorþingi 2018 var samþykkt þingsályktunartillaga frá þáverandi iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem fjallaði um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Segir í þeirri tillögu að treysta skuli flutningskerfið betur, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Skulu Eyjafjarðarsvæði, Vestfirðir og Suðurnes verða sett í forgang. Í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögunnar setti ráðherra orkumála á fót starfshóp um orkumál á Vestfjörðum. Starfshópurinn skilaði skýrslu í vor með metnaðarfullum tillögum til að bæta afhendingaröryggi á Vestfjörðum sem eru bæði tímasettar og með kostnaðaráætlun. Verði þessar tillögur að veruleika má búast við að bæta megi afhendingaröryggi á Vestfjörðum um 90%. Þær tillögur sem eru staðsettar á tímalínu innan þessara fjárlaga eru m.a. jarðhitaleit í fjórðungnum sem skiptir máli, að hafa þá möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar.

Virðulegur forseti. Í því sambandi væri gott að heyra frá hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hvort þess megi ekki örugglega sjá merki að stjórnvöld séu að fylgja þessum tillögum eftir í þeim fjárlögum sem hér liggja fyrir.