Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:31]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu þarf að kaupa losunarheimildir fyrir 800 millj. kr. í tengslum við uppgjör samkvæmt Kyoto-bókuninni. Getur hæstv. ráðherra upplýst mig um það hvers vegna þarf að kaupa þessar heimildir? Er verið að kaupa þessar losunarheimildir af því að íslensk stjórnvöld hafa ekki staðið sig þegar kemur að framfylgd Kyoto-bókunarinnar? Hvaðan á að kaupa þessar losunarheimildir? Er þetta afleiðing þess að of mikið hefur verið selt af losunarheimildum á undanförnum árum? Einnig vildi ég fá upplýsingar um hvort þetta verði reglulegur þáttur í ríkisfjármálum á næstu árum, að kaupa losunarheimildir fyrir tæpan milljarð á ári hverju eða hvort þetta sé einskiptisaðgerð. Sýnir það ekki fram á algjört aðgerða- og metnaðarleysi íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum að okkur tókst ekki að efna skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni? Parísarsamkomulagið fer líklega á sama veg miðað við gang mála. Það sama á við í dag og fyrir hrun þegar kemur að umræðunni um umhverfis- og loftslagsmál. Fyrir hrun var óþarfi að líta á einfaldar staðreyndir í fjárhagsbókhaldi bankanna. Í dag á það sama við um upprunabókhald raforku og losunarbókhald þjóðarinnar í loftslagsmálum. Heimurinn fær bara vita um hreina og græna ímynd Íslands, sem er kannski ekki svo hrein. Í því sambandi er ekki hægt annað en að minnast á þann óskapnað sem varla er hægt að tala um ógrátandi, sem er hin siðlausa og líklega ólöglega sala á upprunaábyrgð raforku til ESB sem byggir á orkupakkalögum. Þar er Ísland að hjálpa ESB að menga og fyrirtækjum í ESB að skreyta sig með íslenskum skrautfjöðrum hreinnar íslenskrar raforku.