Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:32]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Fyrst út af því sem hér er spurt um Kyoto. Endanlegt uppgjör vegna síðara tímabils Kyoto-bókunarinnar fer fram 2022–2023, en skynsamlegt er að gera ráðstafanir fyrr og undirbúa uppgjör sem fyrst. Fyrir hefur legið í nokkurn tíma að Ísland þurfi að kaupa losunarheimildir erlendis frá til að standa við skuldbindingar sínar á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar 2013–2020. Endanlegt magn losunarheimilda sem Ísland þarf að standa skil á liggur ekki nákvæmlega fyrir eða gæði þeirra heimilda og því getur endanleg fjárhæð orðið hærri eða lægri en þær 800 millj. kr. sem eru til ráðstöfunar í fjárlagafrumvarpi.

Varðandi upprunaábyrgðirnar, sem er annað mál og tengist þessu ekki, þá hef ég látið skoða það sérstaklega. Ríkið er ekki að vinna í þessu fyrirkomulagi heldur eru það orkufyrirtækin sem fá tekjur af þessu. Þetta fyrirkomulag er til staðar og íslensku orkufyrirtækin fá umtalsverðar tekjur af þessu. Ég veit ekki hvort ég á eitthvað að útskýra þeirra sjónarmið en þeir segja sem svo að þetta fyrirkomulag er til staðar og þeir aðilar sem kaupa íslensku hreinu orkuna eru ekki tilbúnir til að borga fyrir þessar upprunaábyrgðir og þá selja þeir þetta til annarra aðila, annarra fyrirtækja í Evrópu. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta ekki vera mjög — ég veit ekki hvað skal segja en við getum orðað það þannig að það er mjög auðvelt að gagnrýna þetta fyrirkomulag. Ég held að það sé alveg óhætt að segja það. Ég veit alveg hvert markmiðið er. Markmiðið er að þau fyrirtæki sem framleiða græna orku fái tekjur til að framleiða meiri græna orku. Það er einhver slík hugmynd. Þeir aðilar sem framleiða ekki græna orku er refsað með því að þeir þurfa að kaupa þessar ábyrgðir. (Forseti hringir.) En við fáum kannski að ræða þetta meira í þingsal.