Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:35]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er alveg rétt, þetta er óskylt mál en samt skylt og ég vildi endilega koma þessu að líka þar sem þetta sýnir losunarheimildirnar. Þarna erum við að selja upprunaábyrgðir til Evrópu og þá erum við að framleiða raforku með kolum á pappírunum en samt hefur þetta ekki áhrif á útblásturinn. Það gleymist að hafa losunarheimildir loftlags inni í þessari sölu. Hvort Evrópusambandið sé svona klókt í þessum málum skal látið ósagt.

Ég vildi einnig spyrja hæstv. ráðherra út í þingmál á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem ætlað er að hann leggi fram í vetur. Það er frumvarp um bann við olíuleit á Íslandi. Er hann virkilega í hjarta sér stuðningsmaður þess að lagt verði bann við olíuleit og olíuvinnslu á Íslandi? Því trúi ég ekki. Íslenskur almenningur ekur enn um á bensín- og olíudrifnum bílum. Hvaðan kemur þetta bensín og þessi olía? Jú, þetta kemur frá öðrum ríkjum, líklega framleiðsluríkinu Noregi sem er okkar næsta nágranni. Með banni við olíuleit í íslenskri efnahagslögsögu er Ísland hins vegar að segja að landið sé hreinna en önnur ríki og taki ekki þátt í olíuleit eða framleiðslu á olíu, þrátt fyrir að við notum mikið af olíu miðað við höfðatölu. Þar eiga aðrir að hjálpa því að Ísland er svo fínt. Líklega hefur dyggðaskreyting þessarar ríkisstjórnar ekki verið innihaldslausri og umvafin meiri hræsni en með þessu fyrirheiti um bann við olíuleit við Ísland og er þó af nógu að taka. Við notum olíu líkt og umheimurinn og það er ekki að fara að breytast á allra næstu árum. Í stað olíuleitar og olíuvinnslu við Ísland verður líklega flutt inn olía annars staðar frá, kannski unnin úr tjörusandi í Norður-Kanada eða öðrum svipuðum ríkjum vegna þessarar dyggðaskreytingar. Það er til hugtak yfir svona hegðun ríkja, þ.e. umhverfisleki, á ensku „environmental leakage“. Þá taka þjóðir, og hér er það Ísland, á sig mengandi framleiðslu vegna umhverfisstefnu annarra oftast ríkra þjóða. Sömu sjónarmið eiga við þegar kemur að álframleiðslu hér á landi. (Forseti hringir.) Ef olía finnst við Ísland þá getum við minnkað kolefnisspor landsins með því að framleiða (Forseti hringir.) eigin olíu með nýjustu tækni í staðinn fyrir að flytja hana til landsins. Ég vil einnig benda á þau gríðarlegu þekkingu sem myndi koma inn í landið með olíuleit við Ísland.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmann á að virða ræðutíma )