Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:37]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Mér finnst gæta ákveðins misskilnings í þessari umræðu. Það er ekki nein bensínstöð á Drekasvæðinu sem bíður eftir að við förum og töppum af henni. Þetta er ekki þannig. Þessi heimild hefur verið í lögum mjög lengi og það er ástæða fyrir því að hún hefur ekki verið nýtt. Það er alveg ástæða fyrir því. Það væri fyrir löngu búið að nýta þetta ef það væri auðvelt. Þetta er bara með erfiðari svæðum. Og hafi það farið fram hjá einhverjum þá ætlum við að verða jarðefnaeldsneytislaus. Við erum búin að setja okkur mjög háleit markmið sem þýðir t.d. að á næstu sjö árum, á beinni ábyrgð Íslands, ætlum við að losa okkur við 1,3 milljónir tonna af CO2 og miklu meira þegar við horfum svo fram til 2040 þegar maður talar líka um LULUCF og ETS-kerfið. Flestir halda að þetta sé rosa auðvelt hjá okkur, en auðvitað er þetta alls ekki auðvelt. Af hverju halda allir sem maður talar við í útlöndum að þetta sé auðvelt hjá okkur? Vegna þess að á undan okkur kom fólk sem sagði: Við ætlum að nota íslenska, endurnýjanlega orku en ekki gas og kol. (EÁ: Þetta snýst um leitina.) Ef menn fara upp á Hlemm þá sjá þeir síðustu leifarnar af gasstöðinni sem var lokað 1950 og eitthvað því að þessir aðilar sem vildu fara að nota íslenska orku, endurnýjanlegu orku, voru ekki alltaf ofan á. Þess vegna voru hér notuð kol og gas og því var ekki lokið fyrr en 1950 og eitthvað. Við erum að flytja þessa þekkingu til annarra landa og við erum að setja okkur mjög hátt markmið, að nýta íslenska endurnýjanlega orku í staðinn fyrir það sem við notum núna af bensín og dísil, jarðefnaeldsneyti. Við erum í ótrúlega góðri stöðu af því að þeir unnu hina pólitísku baráttu sem vildu nota íslenska endurnýjanlega orku. Og hugsið ykkur stöðuna hér ef við værum enn þá með gasstöðina hér í Reykjavík. (Forseti hringir.) Við þekkjum öll hvernig ástandið er í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þannig að ég fer glaður í það verkefni að klára orkuskiptin á Íslandi.