Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Svo að við höldum aðeins áfram með þetta þá miðast núverandi aðgerðaáætlun við að ná niður losun um 29% Nú er ríkisstjórnin komin með sjálfstætt markmið um 55% losun árið 2030. Þarna munar þó nokkuð mörgum prósentum og ekki er til aðgerðaáætlun um hvernig eigi að ná árangri í samdrætti. Árin styttast og ef maður horfir á fyrstu áætlanir um 40% samdrátt, sem er sameiginlegt markmið með Evrópusambandinu og útleggst þannig að okkar ábyrgð er 29%, þá er maður ekki enn farinn að sjá mikinn árangur af þeim aðgerðum. Það er mikið um skipulag og ýmislegt svoleiðis, skýrslugerð og því um líkt, en aðgerðirnar sjálfar eru ekki komnar mjög langt á veg. Það tekur tíma fyrir aðgerðir að komast af stað og það eru ekki mörg ár þangað til að 2030 rennur upp og við förum að skoða niðurstöðuna, hvort við séum með 55% samdrátt í losun eða ekki. Ég sakna þess einmitt í fjármálaáætluninni að ekki séu vörður á leiðinni. Það eru ekki áfangamarkmið sem við getum þá skoðað og séð hvort aðgerðaáætlun sé í raun og veru að skila okkur í áttina að þessu markmiði. Miðað við núverandi aðgerðaáætlun, sem þarf að uppfæra til að ná meiri samdrætti í losun, erum við sannfærð um að við getum náð því markmiði? Vissulega þarf ekki fjármagn í allt en það þarf fjármagn í eitthvað. Munum við ná þessum árangri árið 2030 eða þurfum við að spýta ansi rosalega (Forseti hringir.) í lófana og hvernig birtist það í fjárlögum og fjármálaáætlun ríkisins?