Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:47]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Ég fer beint í lokaspurninguna: Getum við náð þessum árangri? Svarið er já. Þurfum við að spýta í lófana? Já, það liggur alveg fyrir. (Gripið fram í.) Sjö ár eru mjög stuttur tími. Ég held að vísu að árið sé ekki að styttast eins og hv. þingmaður vísaði til, en þetta er samt sem áður stuttur tími (Gripið fram í.) Það er bara ein leið til að gera þetta og hún er að við vinnum saman að því. Þegar ég vísa í geiraskiptinguna er það ekki lítið, þetta er fíll sem þú verður að skera í bita. Bara til að útskýra fyrir þeim sem þekkja ekki til þá er það þannig ef sænska fyrirkomulagið er skoðað, Svíar eru komnir lengra en við, að skíðasvæðin eru t.d. sérgeiri og búið er að gera áætlun um það hvað atvinnugreinin ætli að gera, hvað stjórnvöld ætli að gera og síðan er eitthvert kolefnishlutfall, hvort það er 27% eða hvað það er. Þannig þurfum við að gera þetta og það er þannig sem við höfum lagt áherslu á að vinna þessa hluti.

Hv. þingmaður spyr um vörður á leiðinni. Það sem við ætlum að gera og höfum verið að leggja drög að er mælaborð þannig að allir geti séð hvernig aðgerðaáætlun gengur, þannig að við sjáum vonandi næstum í rauntíma hvernig okkur gengur, því að það skiptir svo miklu máli að við vitum öll hver staðan er. Ég ætla ekki að koma hér og lofa því að næst þegar aðgerðaáætlunin verður uppfærð, sem er auðvitað forgangsmál, verðum við komin með hina fullkomnu áætlun vegna þess að við erum að læra mikið á leiðinni. Við byggjum þetta á losunarbókhaldinu og við vitum, við eins og allir aðrir, það er engin sérstaða Íslands, að það er t.d. tæki sem er í þróun og verður áfram í þróun. Við þurfum að leggja mikla áherslu á grunnrannsóknir til að læra ýmislegt en sömuleiðis þá er heimsbyggðin að fara í vegferð sem hefur ekki verið farið í áður og það liggur alveg fyrir að menn munu læra mikið á leiðinni. (Forseti hringir.) Það jákvæða er að þegar þú setur allt þetta hugvit í þetta þá koma líka allra handa lausnir sem enginn hafði séð fyrir.