Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:49]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir greinargóð svör hér. Ég veit að það kemur honum ekkert sérstaklega á óvart að ég ætla ekki að vera á sömu línu og öll hin og spyrja út í loftslagsmál sérstaklega heldur langar mig að spyrja út í náttúruvernd, því að náttúruverndarmál eru jú eitt af verkefnum hæstv. ráðherra. Mig langar að nota örfáar sekúndur til að minna á það sem lá fyrir í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar, sem er auðvitað hin sama, þar sem var stóraukin áhersla á náttúruvernd, m.a. með aukningu í friðlýstum svæðum, eflingu og uppbyggingu innviða á þessum friðlýstu svæðum, bæði þeirra sem fyrir voru og á nýjum svæðum sem og í landvörslu. Ef ég man þetta rétt kom tæpur hálfur milljarður nýr inn í landvörsluna á síðasta kjörtímabili og var ekki vanþörf á enda hafði kerfið verð svelt.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra fyrst út í stöðu þessara þriggja stofnana sem sinna í rauninni umsjón með friðlýstum svæðum, þ.e. hluta Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og þjóðgarðsins á Þingvöllum, þróunina annars vegar í rekstrarframlögum til þessara stofnana sem og framlögum sem tengjast framkvæmdum, svokallaður 6.4.1 liður. Hægt er að horfa til hans í einhverjum tilfellum en að sama skapi er líka hægt að nýta sér landsáætlun um uppbyggingu innviða sem ég ætla að koma inn á í seinni spurningu. En erum við að sjá, hæstv. ráðherra, áframhaldandi þróun í jákvæða átt í aukningu framlaga, annars vegar til rekstrar og hins vegar til framkvæmda innan þessara þriggja stofnana sem sinna þessu mjög svo mikilvæga verkefni?