Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:51]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningu um afskaplega mikilvægan málaflokk sem er náttúruvernd. Þar er af mörgu að taka. Fljótlega mun verða sett í samráðsgátt skýrsla um líffræðilega fjölbreytni sem er nokkuð sem ég tel að við þurfum að hafa augun á, ekki síst þegar við erum að fara í loftslagsaðgerðir því að við getum gengið þannig fram að við getum minnkað líffræðilega fjölbreytni ef við vöndum okkur ekki. Það viljum við ekki gera. Bara svona til að klára helstu þættina varðandi stofnanirnar sem hv. þingmaður vísaði til þá erum við að skoða þessar þrjár stofnanir, vinna með starfsfólki og öðrum í að skoða hvernig við getum nýtt þau tæki sem best. Það er ekkert leyndarmál að við erum að líta á það að sameina því að það er tvíverknaður á mörgum stöðum, svo dæmi sé tekið, og við þurfum að hafa öflugar stofnanir til að ná markmiðum, ekki bara í náttúruvernd heldur ekki síður í loftslagsmálum. Stóru upphæðirnar sem hv. þingmaður vísaði til fara í gestastofurnar. Við erum nú að klára gestastofuna á Kirkjubæjarklaustri, Hellissandi og Gíg. Þarna eru um 200 milljónir til að klára þessa hluti, ef ég fer rétt með. Í ofanálag er síðan gert ráð fyrir sýningu sem mun kosta 300 millj. kr. og koma, ef ég man rétt, inn á fyrsta ári. Síðan er landsáætlun um rúma 900 millj. kr. sem stofnanir sækja í. En við skulum líka hafa það í huga að það hefur verið gert mjög mikið á skömmum tíma, eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel frá fyrri störfum sínum. Það er sem betur fer allt önnur ásýnd á þeim svæðum sem menn höfðu miklar áhyggjur af. En þetta er því miður og sem betur fer eilífðarverkefni, en mjög spennandi verkefni.