Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:56]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hvatninguna og spurningarnar. Ég er sammála hv. þingmanni, ég held að það hafi verið vel til fundið að færa menningarminjarnar inn í þetta ráðuneyti. Ég held að þetta snúist líka svolítið um hugarfar, að þegar við lítum til þessara þátta þá hugsum við einnig um menningarminjarnar. Það er svolítið skrýtið að horfa bara á náttúruminjar og ekki menningarminjar eða bara menningarminjar en ekki náttúruminjar. Minjastofnun sækir eins og aðrar stofnanir til landsáætlunar í samræmi við reglur sjóðsins en það sem við eigum auðvitað að líta til alveg sérstaklega, þegar við erum að fara í þessa vinnu með stofnanirnar, er að kjarninn í starfsemi stofnananna nýtist sem best, mannauðurinn nýtist sem best til þeirra markmiða sem lagt er upp með. Síðan gætum við auðvitað lengi talað um tækifæri, vil ég segja, þegar kemur að því að vernda og nýta menningarminjar og náttúruminjar því að það eru líka mikil tækifæri í þessu. Svona verkefni verða aldrei kláruð og það er mjög mikilvægt að þetta sé líka unnið með þeim aðilum sem ekki bara gerst þekkja til heldur líka þeim sem búa á viðkomandi svæðum og að það geti líka nýst fólki til að njóta. Þótt aðalatriðið sé að við viljum vernda það sem við viljum vernda viljum við líka að fólk fái að njóta landsvæða. Hv. þingmaður vísaði hér til Geysissvæðisins sem er t.d. gott dæmi um svæði sem við viljum svo sannarlega líka fá að njóta. En þar held ég að samvinna aðila sé mikilvæg, ekki bara á milli stofnana heldur að heimamenn geti fengið að koma að því og koma með sínar hugmyndir um það hvernig þessu máli sé best fyrir komið.