Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Hæstv. loftslagsráðherra byrjaði á því að lesa í belg og biðu einhverjar kostnaðartölur að því marki að það var erfitt að átta sig á því hvert væri verið að fara og ómögulegt að vita hvaða gagn þessi útgjöld myndu gera. En það vissum við svo sem fyrir.

Í framhaldinu hefur hæstv. ráðherra svarað hér fyrirspurnum. Þá hefur verið rauður þráður í ræðum hæstv. ráðherra hvað þetta væri allt flókið og menn vissu í rauninni lítið um þetta, menn væru að læra og það væri verið að skrifa nýjar skýrslur og reyna að átta sig á því hvað þetta væri allt sem menn væru að fást við. Spurningu um 800 millj. kr. sekt eða gjald vegna losunarheimilda, um það sagði hæstv. ráðherra að það hafi lengi legið fyrir en þó lægi ekki alveg fyrir hvernig þetta yrði. Vegna þess að allt eru þetta mjög á reiki en þó er ljóst að kostnaður við verkefni ráðherrans fer sífellt hækkandi, eins og hæstv. ráðherra og fleiri státa sig af.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Getur verið að of mikið af þessum kostnaði fari í alþjóðlega skýrslugerð eða þátttöku í því batteríi án þess að menn viti raunverulega alveg hvað þeir eru að gera alltaf og að menn líti ekki nógu mikið á kostnaðinn sem af þessu hlýst? Og þá er ég ekki bara að tala um kostnaðinn við að fóðra eitthvert sívaxandi kerfi heldur einnig kostnaðinn fyrir hagkerfið af því, eins og áformað er að því er virðist, að fórna verðmætasköpun í landinu, draga úr framleiðslu í landbúnaði, iðnaði og öðru, draga úr neyslu og þar með lífskjörum, sem felur í sér mjög raunverulegan kostnað. Getur verið að það þurfi að líta meira á raunsæjar rannsóknir sem geta gert raunverulegt gagn og aðlögun, aðlögun að breyttu loftslagi?