Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:24]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa brýningu og tek heils hugar undir henni um mikilvægi þess að Listaháskólanum verði loksins búið gott húsnæði þar sem allt er undir sama þaki. Það tókst heldur betur vel á fyrstu mánuðum í nýju ráðuneyti að koma af stað vinnu þar sem fundin var skynsamleg fjármögnunarleið að þessu húsnæði og gengið frá því svo að þetta gæti hafist. Á morgun er verið að ganga frá vonandi fljótlega lokadrögum að samningi um hönnunarsamkeppni um skólann í húsinu til að við getum farið eins fljótt og mögulegt er af stað. Þá er líka mikilvægt að klára skynsamlega leið til að fjármagna þetta af því að kostnaðurinn við að hafa þetta í mörgum húsum og allt sem var að koma upp, ýmis kostnaður sem kom til, er auðvitað gríðarlegur. Það verður ánægjulegt þegar hönnunarsamkeppni fer í undirbúning og fer af stað og við getum fjármagnað hana innan þess ramma sem er hér lagður fram í þessum fjárlögum. Og svo vil ég taka undir með hv. þingmanni varðandi listgreinarnar almennt. Gaman er að segja frá því að í samstarfsjóðnum set ég set áherslu á ákveðnar greinar til að skólar vinni betur saman og þá eru þær nefndar STEAM-greinar þar sem A er komið inn í þekkta upptalningu á STEM-greinum, og stendur fyrir listir eða „arts“. Þá erum við að ýta undir það að hægt sé að fara í samstarf skóla til að kenna listnám líka víðar um landið en bara í höfuðborginni.