Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:32]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það sem hv. þingmaður kemur inn á er einmitt það sem ég hef heyrt á ferðum mínum um landið. Það er mikill og ríkur vilji ungs fólks, og svo sem fleiri, að meira aðgengi sé að háskólanámi í fjarnámi. Skólarnir finna þetta líka. Það þurfa samt ekki allir háskólar að verða fjarnámsskólar. Það þurfa ekki allir að setja áherslur sínar á það af því að það þarf líka að tryggja gæði námsins þegar það er sett í fjarnám. Það sem ég gerði því var að taka saman þá fjármuni sem ég mögulega gat til að setja upp þennan samstarfssjóð háskólanna og búa þannig til fjárhagslegan hvata fyrir háskólana til að fara í samstarf og nefndi sérstaklega fjarnám og nám óháð staðsetningu. Hvernig verður sjóðurinn nýttur innan skólanna? Við erum með mjög góð dæmi. Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri eru í frábæru samstarfi um tölvunarfræði þar sem tölvunarfræði er kennd frá Háskólanum í Reykjavík, af Háskólanum á Akureyri fyrir norðan og þeir eru að fara að endurspegla sama nám núna fyrir austan í fjarnámi. Þarna er Háskólinn á Akureyri að nota sérstöðu sína sem góður fjarnámsskóli til að kenna nám úr öðrum skóla. Þetta væri hægt að gera í miklu fleiri greinum og það er vilji háskólanna að gera slíkt. Eftir samtöl mín um samstarfssjóðinn þá kom þetta einmitt á daginn, skólarnir eru tilbúnir að fara hraðar í að kenna fjölbreyttara nám sem einmitt er kallað eftir. Við getum nefnt tæknifræði, sem gríðarleg þörf er fyrir um allt land. Það er vilji til að fara í slíkt samstarf, fá styrk úr þessum samstarfssjóði til að ýta undir meira fjarnám. Ég er mjög spennt fyrir að fylgjast með þessu og tel að þetta sé fyrsta leiðin sem farin er til að búa til fjárhagslega hvata fyrir háskólana til þess einmitt að stíga skref í átt að (Forseti hringir.) meira fjarnámi sem skólarnir finna auðvitað vel að ákall er eftir í samfélaginu (Forseti hringir.) og ekki síst þegar við erum í samkeppni við skóla erlendis og þegar stafvæðing náms verður miklu meiri en hún er í dag.