Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:34]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ég er mjög ánægð með þetta svar. Mér dettur í hug að spyrja hvort símenntunarmiðstöðvarnar séu hluti af því sem á að koma inn í sjóðinn. Þær skipa stóran sess á þeim svæðum þar sem háskólarnir eru almennt ekki með neitt starf. Er hugsunin að efla þau svæði sem hafa einungis símenntunarmiðstöðvar? Öflugt fjarnám getur auðveldað íslenskum háskólum að koma til móts við kröfur atvinnulífsins, landsbyggðanna og einstaklinga sem búa við mjög ólíkar aðstæður. Svo langar mig að spyrja: Hefur hæstv. ráðherra eitthvað hugsað sér að bæta stuðningskerfi við kennara í tengslum við fjarnám? Nú er tæknikunnátta kennara mjög misjöfn þannig að það er spurning hvort farið verði sérstaklega í að styrkja tæknikunnáttu þeirra. Við skulum hafa í huga að áhersla á fjarnám háskólanna er til að hækka menntunarstig landsmanna allra og auka jafnan aðgang að námi og það er því til mikils að vinna að ráðherra sé með okkur um borð því að það þarf að standa til boða alls staðar.