Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:38]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra út í þróun mála hvað varðar uppbyggingu og viðhald fjarskiptainnviða á landsbyggðinni en þar mætti víða líkja ástandinu við götóttan sokk. Nú hefur Alþingi samþykkt ný lög um fjarskipti sem eiga að færa stjórnvöldum þau verkfæri sem þarf til að efla betur og tryggja fjarskiptasamband á þjóðvegum landsins. Mun hæstv. ráðherra leitast við að tryggja að fjarskiptafyrirtæki taki að sér uppbyggingu og rekstur fjarskipta á þessum dauðu svæðum þegar samið verður um úthlutun tíðniheimilda á næsta ári? Mun ráðherra tryggja fjármuni úr ríkissjóði til að stoppa í götin á afskekktum og lítt hagfelldum svæðum? Fjölmörg dæmi eru um að fólk lendi í slysi utan þjónustusvæðis og þurfi jafnvel að ganga fleiri kílómetra til að geta hringt eftir aðstoð. Sem dæmi nefni ég frásögn úr Dalabyggð sem barst í umsögn við frumvarp mitt um bætt fjarskiptasamband á síðasta löggjafarþingi, svohljóðandi:

„Þegar þessi umsögn er skrifuð gengur óveður yfir landið með tilheyrandi útköllum viðbragðsaðila. Því miður varð í sveitarfélaginu útkall vegna ökutækis sem var fast á stað þar sem farsímasamband var ekkert. Það vildi til happs að annar vegfarandi kom að og gat leitað í samband til að kalla eftir aðstoð. Endurspegla atvik sem þetta vel þá nauðsyn að tryggja farsímasamband á öllum vegum.“

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvað hann hyggist gera til að tryggja að svona atvik gerist ekki aftur.