Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:40]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Já, það er skýrt verkefni að tryggja samstarf um fjarskiptasamband á fáförnum stöðum til að tryggja öryggi. Í vor kynnti Neyðarlínan samstarf við öll farsímafyrirtækin, sem hefur ekki gerst áður að ég tel, í verkefni þar sem þau taka höndum saman um að tryggja gott farsímasamband á fáförnum og afskekktum stöðum á Íslandi. Þetta mun skapa aukið öryggi þar sem víðar verður hægt að ná sambandi við neyðarnúmerið. Þetta er mögulegt með samstarfi aðila þar sem aðili, hvar sem hann er, getur tengst hvaða farsímasendi sem er. Fólk hefur upplifað það að vera einhvers staðar þar sem fólk í öðru símafélagi er með símasamband en ekki það sjálft. Með nýjum fjarskiptalögum er einmitt þetta samstarf betur tryggt og betur skýrt og kveðið á um mikilvægi þess til að tryggja betra samband á þessum stöðum. Ég tel þetta samstarf fjarskiptafyrirtækjanna mjög mikilvægt. Neyðarlínan hefur nú skilgreint ákveðna hættustaði og þar er verið að byrja á þessu samstarfi og ég held að það sé mjög tímabært. Varðandi fjarskiptainnviðina almennt þá er tæknin líka að færast mjög hratt áfram, með 5G og annarri tækni, hvar við erum búnir að setja ljósleiðara og hvernig við getum ýtt undir það að fjarskiptafyrirtækin, m.a. í tíðniúthlutuninni sem hv. þingmaður kemur inn á, geri enn betur fyrir þessa fáförnu staði svo að við tryggjum öryggi landsmanna hvar sem er. Samstarfið myndi ég telja að væri mjög góð byrjun og mjög mikilvægt og ég held, miðað við mín samtöl við fjarskiptafyrirtækin og Neyðarlínuna, að þetta sé aðeins byrjunin á slíkri uppbyggingu og að við munum sjá fljótt að þetta byggist hraðar upp.