Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég fagna sérstaklega þeim orðaskiptum sem urðu hér áðan af hálfu ráðherra og annars þingmanns um Listaháskólann og vil hvetja hæstv. ráðherra sérstaklega til dáða hvað það varðar. Það er mjög mikilvægt. Ég vil líka vekja athygli á þeim sjóði sem hæstv. ráðherra hefur komið á laggirnar og vil hrósa ráðherranum að því leyti til að búið er að tryggja fjármagnið, búið er að forgangsraða innan rammans, og það er í fjárlagafrumvarpinu. Ráðherra hefur ekki hagað sér eins og einhver gapuxi, gasprandi um allar koppagrundir, lofað upp í ermina á sér hundruðum milljóna króna í einhver verkefni, og vakið upp falskar vonir og væntingar. Mér finnast þessi vinnubrögð góð.

Síðan er ég komin að sjóðnum. Ég tel afar mikilvægt að þessi hvatning sé til staðar. Ég verð hins vegar að segja, og það er svolítið einkenni þessarar ríkisstjórnar, að það er ekki verið að nota tækifærið í fjárlagafrumvarpinu til að einfalda og hagræða. Ég hefði auðvitað viljað sjá stærri skref stigin varðandi sameiningar háskóla. Háskólar hafa ekki verið sameinaðir síðan við sameinuðum á sínum tíma Tækniháskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og Kennaraháskólann og Háskóla Íslands. Ég hefði viljað sjá einhver öflugri skref. En gott og vel, hvatningin er til staðar. Mig langar að spyrja: Er ekki alveg ljóst að ákveðnar forsendur og markmið verða dregin upp þannig að þetta verði bara ekki eins og eitthvert skúffufé hjá ráðherra? Erum við að tala um sömu viðmið og eru t.d. í Rannís? Hvaða verklagsreglur verða viðhafðar þannig að þetta verði svolítið gegnsætt? Þetta eru miklir fjármunir. Síðan langar mig til að spyrja um fatlaða, og það er ekki lítið mál fyrir mjög mikilvægan hóp. Árið 2007 komum við á laggirnar diplómanámi við Kennaraháskólann og síðan var það fært yfir til Háskólans þegar háskólarnir sameinuðust: Er ætlunin innan þessa ramma að skapa hvata fyrir háskólana til að vera meira opnir fyrir fatlaða nemendur, til að mynda með þroskahömlun, til að taka á móti þeim einstaklingum sem svo sannarlega þurfa á fleiri úrræðum að halda en nú eru í boði?