Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:04]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og þetta er svolítið góð spurning, hvaðan koma peningarnir, af því að þeir koma alltaf frá einhverjum stað. Í fyrsta lagi þá hefur þetta verið safnliður háskólastigsins þannig að ekki er um að ræða áhrif á fjármagn til nýsköpunar, iðnaðar, fjarskipta eða aðra peninga sem hafa verið til úthlutunar. Framlög til háskóla- og vísindastarfsemi hafa verið notuð í hin ýmsu áherslumál ráðherra í gegnum tíðina og þar má nefna t.d. sumarnám á Covid-tímum, þar var hægt að bregðast við innan safnliðs, ýmsar ráðstefnur eða að kosta ýmsar afgreiðslur á styrkbeiðnum sem koma til ráðuneytisins. Hér er ég að forgangsraða stórum parti af þeim fjármunum, ekki öllum, í nýjan sjóð til þess að styrkjaumhverfið sem er við lýði innan ráðuneyta sé gagnsætt og fyrir alla háskólana þar sem við nýtum ákveðin tækifæri til hvata svo að háskólarnir eigi auðveldara með að stíga skref í þær áttir sem ég segi þar fyrir um. Ég held að í þessu felist gríðarleg tækifæri og það hafa rektorarnir sjálfir sagt. En að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á hinar ýmsu styrkbeiðnir sem lágu inni í ráðuneytinu og einhverjar líða nú undir lok.