Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:07]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki áhyggjur af þessu. Í fyrsta lagi þá er ekki veittur styrkur úr sjóðnum nema til háskóla sem sækja um í samstarfi við annan eða aðra háskóla. Þeir geta síðan í einhverjum tilvikum verið í samstarfi við fleiri aðila í samfélaginu, t.d. við nýtingu rannsóknarinnviða þar sem væri frábært að einkaaðilar myndu hleypa hinu opinbera að nýtingu sinna rannsóknarinnviða. Þar geta verið hin ýmsu tæki og tól, gríðarlega dýrir innviðir oft á tíðum sem eru til en eru kannski ekki mjög aðgengilegir fyrir ungt fólk í háskólanámi. Þarna geta verið gríðarleg tækifæri fyrir okkur og samstarfsskólana til að nýta innviði og það held ég að gæti orðið mjög jákvætt. En forsendur fyrir styrk úr sjóðnum eru að háskólar, í fleirtölu, komi sér saman um ákveðin verkefni og sæki á þeim grunni um í sjóðinn og það getur einmitt orðið til þess að við getum flýtt í kjördæmi hv. þingmanns fjarnámi í fleiri greinum sem kenndar verði víðar um land en ekki bara á höfuðborgarsvæðinu.