Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:22]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu gerum við ráð fyrir 3,2% aukningu í fjárveitingum til framhaldsskólanna. Við erum hins vegar líka að taka fjármagn til hliðar. Stærstum hluta fjármagnsins sem hefur farið í skiptingu með reiknilíkaninu hefur undanfarin ár verið skipt með reiknilíkani sem við höfum ekki verið búin að opna. Síðan hefur verið jafnað út á milli ákveðinna skóla og við tókum til hliðar ákveðið fjármagn sem við erum með til að bæta það upp. Við skiptum því ekki eftir líkaninu núna heldur gerum við ráð fyrir því að geta, á milli umræðna, þegar við höfum átt samtal við skólana, bætt þar við. Síðan er auðvitað aðhaldskrafa á þetta málefnasvið, þótt við fáum breytingu vegna launahækkunar. Þó að aðhaldskrafan sé ekki mikil þá er smávægileg breyting hvað þetta snertir. Það er staðreynd. En það er óveruleg breyting og á ekki að þurfa að hafa áhrif á heildarstöðu málaflokksins. En breytingin á milli einstakra skóla getur verið talsvert mikil og það útskýrist að einhverju leyti af nemendafjölda en fyrst og síðast vegna þess að við erum að skipta fjármununum núna í fjárlagafrumvarpinu út frá strípuðu reiknilíkani til að fá opna og gagnsæja umræðu um það hvaða breytingar þurfi að gera á reiknilíkaninu til að skipta fjármununum sanngjarnt á milli viðkomandi skóla.