Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:30]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég hygg að ég og hv. þingmaður höfum áður átt orðaskipti um þessi mál. Bara til að vera alveg heiðarlegur þá held ég að lausnin felist ekki í því að setja aukna fjármuni inn í skólakerfið. Ég held að við þurfum að hugsa hlutina talsvert upp á nýtt. Ég hef áður sagt við hv. þingmann að mér finnist spennandi það verkefni sem er í gangi í Vestmannaeyjum, Kveikjum neistann, og hv. þingmaður var að vitna óbeint til sambærilegra verka. Ég heimsótti Vestmannaeyjar fyrir þremur vikum og fékk kynningu á þessu verkefni. Raunar eru þau að gera fleira en nákvæmlega það sem snýr að lesskilningi. Þau eru líka að stokka upp skóladaginn, setja inn aukna hreyfingu og það eru fleiri atriði sem eru gróskumikil þar.

Ég held að það sé ekkert eitt svar við þessu og ég held að svarið felist ekki eingöngu í því sem hv. þingmaður var að vitna til að breska þingið væri að gera. Ég held að við þurfum að efla enn frekar endurmenntun kennara. Ég held að við þurfum að þjónusta skólakerfi miklu betur en við erum að gera. Ríkið hefur í allt of miklum mæli látið leik- og grunnskólakerfið afskiptalaust síðustu 25 árin, fyrir utan það að taka umræður um námskrá, fjárveitingar í gegnum jöfnunarsjóð o.s.frv. Þessu hef ég í hyggju að breyta, við viljum breyta þessu. Það er hluti af menntastefnu 2030 að koma upp heildstæðri skólaþjónustu og efla þjónustuna við grunnskólakerfið með breytingum á Menntamálastofnun þar sem hún fái aukið þjónustuhlutverk og sé í beinu samstarfi við skólana. Síðan þurfum við að efla bæði innra og ytra mat skólanna svo að um munar. Allt er þetta eitthvað sem við ætlum okkur að gera á næstunni og við reiknum með því að kynntar verði breytingar á næstu vikum hvað þetta snertir. Þegar hv. þingmaður spyr hvað ráðherrann ætli að gera þá svara ég: Við ætlum að setja þetta á oddinn en það þarf að gera það með fjölbreyttum aðferðum og fjölbreyttari nálgun, það er ekki eitthvert eitt sem mun bara laga þetta og þá verður allt fullkomið.