Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:33]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í svari hæstv. ráðherra felst að hann ætlar sem sagt ekki að gera neitt. Þetta snýst um kennsluaðferð, um það að beita réttri kennsluaðferð. Þetta almenna spjall sem var hér áðan segir nákvæmlega ekki neitt. Íslendingar eru ekki að nota alþjóðlega viðurkennda kennsluaðferð til að kenna börnum að lesa. Og að segja það að Bretar, ein mesta menningarþjóð heimsins sem á eitt mesta leikskáld heimsins, Shakespeare, séu ekki að gera þetta rétt eða að gefa það í skyn að þeir fari villur vegar er einfaldlega bara rangt. (Mmrh.: Ég sagði það ekki.) Þeir lögfestu þessa aðferð sem ég er að leggja hér til og er vísindalega sönnuð af alþjóðlegum stofnunum. Það er búið að rannsaka það, það eru hundruð fræðirita á bak við þetta, ég er ekki búinn að lesa þau öll. En það breytir því ekki að þær aðferðir sem Íslendingar eru að nota í dag eru ekki réttar. Hraðlestrarmælingar sem notaðar eru á Íslandi — það á að henda þeim út í hafsauga. Það er bara þannig. Svo einfalt er það. Og hugsmíðahyggjan gengur ekki þegar kemur að kennslu í grunnfærni. Þá þarf beina kennslu. Barnið á ekki að finna það út sjálft hvernig það á að læra að lesa. Það þarf beina kennslu og þá þarf að nota alþjóðlega viðurkennda kennsluaðferð sem heitir bókstafahljóðaaðferðin. Það er þannig sem þetta virkar. Það er þess vegna sem þessar tölur eru svo slæmar af því að við erum ekki að nota réttu aðferðina. Þetta snýst ekki um peninga. Þetta snýst um það að íslensk stjórnvöld taki ábyrgð á málaflokknum, það er það sem þetta snýst um, en láta ekki aðra stjórna ferðinni. Þetta snýst um það að ráðherra setji þessa aðferð inn í námskrá og það verði gildandi kennsluaðferð í skólakerfinu. Vegna þess að það kerfi sem er núna — ég er búinn að kynna mér þetta mál á undanförnum mánuðum og það sem er á bak við þetta er íslenska, gamla klíkusamfélagið þar sem enginn ber ábyrgð og enginn stjórnar. En samkvæmt íslenskri stjórnskipun ber mennta- og barnamálaráðherra ábyrgð á lestrarkennslu í landinu og hún er hreint og beint ömurleg — ömurleg, eins og tölurnar sýna. Það er ábyrgð þín, hæstv. ráðherra.

(BÁ: Forseti minnir aftur á að ræðumenn beini orðum sínum til forseta en ekki beint til ráðherra eða annarra þingmanna.)