Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Verulega áhugaverð umræða hérna og mætti ýmislegt um hana segja, en ég sleppi því kannski núna. Það er eitt í fjárlagafrumvarpinu sem er rosalega villandi fyrir okkur að vinna með. Það er einmitt þessi staðreynd sem var bent á hérna áðan, fjárframlögin til framhaldsskólanna virðast ekki vera neitt rosalega mikil miðuð við að það er að koma stærri árgangur en er að fara út og margt flókið. En svo áttar maður sig á því að það er ekki búið að setja launahækkanaviðmiðið inn í málaflokkinn og maður veit ekkert hvernig það lendir á framhaldsskólanum. Það eru 14,2 milljarðar sem eru teknir frá úr öllu fjárlagafrumvarpinu sem samsvarar u.þ.b. launahækkunum næsta árs. Þá verður allur samanburður rosalega erfiður af því að það eru kjarasamningar fram undan og einhverra hluta vegna ákváðu ríkisstjórnin og stjórnvöld að áætla ekki hversu mikið launaliðurinn muni hækka á næsta ári. Það finnst mér vera óásættanlegt því að það er svo skrýtið, sérstaklega af því að 14,2 milljarðar eru teknir frá út af þessum launalið. Það er sem sagt vitað hversu há upphæð þetta er í heildina og þá á að vera auðvelt að dreifa henni á öll málefnasviðin og segja hversu hátt hlutfallið er. Svo endar það kannski í einhverju öðru í kjarasamningunum, hver veit. Ég ætla að giska á að það sé 1,1%, þ.e. umfram verðbólgu, sem er það sama og hjá öryrkjunum, í almannatryggingum. Ég giska bara á það. Er það rétt tilfinning hjá mér? Það er eiginlega það sem ég er að spyrja um varðandi framhaldsskólana: Munum við sjá verðlagsbætur plús 1,1% eða eitthvað svoleiðis sem myndi þá hækka framlögin til framhaldsskóla?