Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og yfirferðina. Ég ætla að vera á sambærilegum nótum og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson hérna áðan, en með aðeins aðra nálgun. Þó ætla ég að byrja á því að fagna því mjög að hér er markmið 1 að styrkja lestrarfærni grunnskólanema og ég tek undir það sjónarmið sem fram kom áðan að það er mikil þörf á því.

Hér er talað um lesferil, að klára lesferil, þar með talið þróun og útgáfu lesskilningsprófa og ritunar- og stafsetningarprófa og endurskoða lesfimiviðmiðin. Þá er mín spurning: Er þá ekki örugglega verið að hætta hraðaprófum, að þau séu einhver mælikvarði á lestrarkunnáttu barna? Ég ætla að taka undir það sem kom fram hérna áðan, ég hef enga trú á því að það hversu mörg atkvæði börn lesi á mínútu hafi eitthvað með lestrarskilning eða lestrarkunnáttu að gera. Ég vona svo sannarlega að við séum að hverfa frá þeirri aðferðafræði.

Hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á margt í svari sínu áðan af því sem ég ætlaði að spyrja um hérna. En ég bið hann um að fara aðeins betur yfir það og ég fagna þessari sýn ráðherrans sem kemur fram um að það sé nauðsynlegt að stjórnvöld hafi skoðun á menntamálum og að stjórnvöld aðstoði sveitarfélögin við rekstur grunnskólanna og að það sé einhver heildstæð stefnumörkun um það hvernig við veitum þá þjónustu. Ég ætla að spyrja annars vegar um hraðlestrarprófin: Erum ekki örugglega að henda þeim út um gluggann? Hvað felst í þessum lesferli og þróun á þessum prófum? Hins vegar vil ég spyrja um sýn ráðherrans á það hvernig ríkið muni aðstoða sveitarfélögin frekar þegar kemur að rekstri grunnskóla.