Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:47]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns um lestrarpróf og hvernig lestrarkunnátta verður prófuð þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um það. Hins vegar er í þróun nýr matsferill sem á að leysa af samræmdu prófin. Þar ætlum við að nálgast hlutina á svolítið nýjan hátt, en það liggur ekki nákvæmlega fyrir hvernig því verður háttað þannig að ákvörðun hefur ekki verið tekin um það.

Varðandi seinni spurninguna, hvernig ríkið hyggst styðjast styðja við sveitarfélögin þegar kemur að rekstri skólanna: Í fyrsta lagi er það hluti af menntastefnu 2030 að byggja upp heildstæða skólaþjónustu. Hvað þýðir það? Það þýðir að stoðþjónustan sem við veitum í skólakerfinu, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, sé heildstæð, að hún fljóti á milli skólastiga, að hún fylgi barninu á milli skólastiga og að það sé einhver einn aðili sem haldi utan um það og gæti þess að börn alls staðar fái skólaþjónustu, vegna þess að það er bara ekki þannig í dag. Það er mjög breytilegt hvort það er skólaþjónusta við börn í grunnskóla eða ekki. Þar verði sett ákveðin viðmið sem tryggi það að þessi þjónusta sé fyrir öll börn og tryggi það að við komum af meiri krafti í endurmenntun og stuðning við skólastjórnendur. En það verða alltaf sveitarfélögin sem reka skólana. Það sem kom mér talsvert á óvart, komandi úr félagsmálaráðuneytinu þar sem við vorum með málefni fatlaðs fólks, félagsþjónustu sveitarfélaga og fleiri þætti, var að það var miklu meira samtal á milli stjórnvalda í þeim málaflokkum við sveitarfélögin og stjórnendur í sveitarfélögunum en mér hefur fundist vera í menntamálum. Ég held að það stafi ekki af viljaleysi í menntamálaráðuneytinu eða á Alþingi. Ég held að þetta stafi af því að þegar þetta var flutt yfir til sveitarfélaganna var tekin meðvituð ákvörðun um að ríkið kæmi mjög lítið að þessu af því að sveitarfélögin héldu á þessu.