Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er slæmt hvað við höfum lítinn tíma því að nú myndi ég vilja fara í dýpri umræðu við hæstv. ráðherra og ég óska hér með eftir því sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar að hæstv. ráðherra mæti á fund til okkar þar sem við getum tekið þessa umræðu af meiri dýpt. Það var kannski rangt hjá mér, virðulegur forseti, að ég talaði um rekstur grunnskólanna. Ég hefði átt að leita eftir betra orði því að grunnskólinn er vissulega á ábyrgð sveitarfélaganna og reksturinn þar af leiðandi líka. En af því að hæstv. ráðherra kemur aðeins inn á málefni fatlaðs fólks og samskiptin sem voru á milli ráðuneytisins og sveitarfélaganna þá er náttúrlega engum blöðum um það að fletta að sveitarfélögin bera mjög mikinn kostnaðarþunga af þeim málaflokki umfram það sem samið var um á sínum tíma. Þannig að það er líka hættulegt þegar hið opinbera fer að skipta sér aðeins of mikið af málunum og það er m.a. mikið til vegna lagabreytinga og reglugerða sem settar hafa verið. En ég tek undir þessa sýn hjá ráðherranum um stoðþjónustu og þar hlýtur ríkisvaldið þurfa að koma til aðstoðar.

Þá langar mig að spyrja sérstaklega út í aðstoð til handa sveitarfélögunum, eða hvað eigum við að segja, samfélagslega verkefnið sem við stöndum frammi fyrir, að taka á móti börnum af erlendum uppruna inn í grunnskólann okkar. Við vitum að fólki á flótta hefur fjölgað alveg gríðarlega og við höfum reynt af fremsta megni að taka opnum örmum á móti þessum börnum sem hér hafa farið í skóla. Nú heyrist mikið harmakvein frá ákveðnum sveitarfélögum sem eru að taka á sig ofboðslega stórar og miklar byrðar. Þannig að mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hann í hyggju að koma til móts við þessi sveitarfélög? Og þá má velta fyrir sér annars vegar rekstri en ekki síður þeirri stoðþjónustu sem hæstv. ráðherra kemur inn á.

Þá langar mig sérstaklega að horfa til Úkraínubarnanna sem eru hér núna mjög mörg og mögulega líka úkraínskir kennarar sem gætu aðstoðað. Hyggst ráðuneytið koma með einhverjum hætti inn í þennan málaflokk með sveitarfélögunum og aðstoða þau við að veita sem besta þjónustu til handa þessum börnum?