Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:52]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að nýta þessar tvær mínútur til að svara seinni spurningunni varðandi börn af erlendum uppruna vegna þess að já, ég held að það sé mjög mikilvægt að við stígum inn í þessi mál. Staðan er sú að við höfum verið í samtali við félagsmálaráðuneytið og sveitarfélögin núna síðasta hálfa árið eða svo og erum að setja upp verkefni sem við reiknum með að verði tilraunaverkefni til eins árs þar sem við teiknum upp hvernig við ætlum að taka á móti börnum sem koma hingað af erlendum uppruna. Við erum að finna fjármagn í það til að koma því af stað þar sem sveitarfélög geti þróað með ríkinu móttökuáætlun fyrir börn af erlendum uppruna. Þetta á ekki eingöngu við um börn á flótta vegna þess að við horfum upp á að börn sem flytja hingað frá Póllandi eða jafnvel Búlgaríu þar sem er annað stafróf, svo að dæmi sé tekið, þarfnast miklu heildstæðari þjónustu fyrstu árin en við veitum þeim. Og þetta er hluti af vinnu sem við erum að setja í gang núna sem hluti af innleiðingu farsældarlaganna. Við erum komin með stýrihóp núna, Óttarr Proppé, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, leiðir þann hóp og markmiðið er að skapa heildarumgjörð í kringum þessi börn. Við munum taka fyrst utan um Úkraínubörnin og börnin á flótta, þann hóp, en hugsunin er síðan að geta útvíkkað það. Vegna þess að það er einfaldlega, ekki bara til skammar fyrir íslenskt samfélag að við skulum ekki ná að aðstoða þessi börn betur við að aðlagast íslensku samfélagi, það er einfaldlega hættulegt hvað það gengur illa. Markmiðið á að vera að þessir einstaklingar séu í sama hlutfalli alls staðar í íslensku samfélagi, klári framhaldsskóla og háskóla, taki þátt í íþróttum, verði hér í réttu hlutfalli hér á Alþingi Íslendinga þegar fram í sækir. Þarna stöndum við okkur ekki sem þjóð og þarna verðum við að grípa inn í. Ég þakka hv. þingmanni brýninguna hvað þetta snertir og hlakka til samstarfs við allsherjar- og menntamálanefnd um þessi mál.