Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:57]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að þessi mál eru grafalvarleg. Staðan er sú að við erum með aukið fjármagn til þess að setja inn í þessi mál á málefnasviði fjölskyldumála, til að setja beint inn í umræddar stofnanir. En vandinn hefur hins vegar verið sá að þrátt fyrir að fjármagn sé til staðar þá hefur það ekki í öllum tilfellum gengið út. Ég held að vandinn þarna sé dýpri og meiri en við gerðum okkur grein fyrir. Staðreyndin er sú að það vantar fleira fagfólk inn í þessar stéttir. Það verður ekki tekið upp og klárað á einu ári. Þar þurfum við að grípa inn í. Við erum að undirbúa það að koma inn með einhverjar bráðaaðgerðir en því miður er staðan sú að á meðan við erum ekki með fleira fagfólk, menntað fólk, til staðar í íslensku samfélagi sem getur sinnt þessum málum þá er það flöskuhálsinn. Við erum byrjuð í samtali við háskólaráðuneytið um það hvernig við getum farið í hvataaðgerðir til að fleiri mennti sig á þessu sviði. En á sama tíma er það líka svo að í einhverjum tilvikum er hægt að draga úr þörf fyrir umræddar greiningar með því að grípa fyrr inn í og veita skólanum þau tæki og þá þjónustu að þeir geti þjónustað börnin jafnvel án þess að til greininganna komi. Það á líka við um það hvernig við byggjum upp fjármagnsútdeilingarkerfi hins opinbera, það er líka mjög greiningardrifið. Þú þarft að ná ákveðinni greiningu til að fara í ákveðið box til að fá ákveðið fjármagn fyrir ákveðinni þjónustu. Við sjáum að það eru skólar, það eru sveitarfélög, sem hafa brotið þetta niður og veita þjónustuna óháð þessu og þar þurfum við líka að bæta inn í, þ.e. að hvetja til þess. Breytingarnar sem við ætlum að gera á skólakerfinu, í samstarfi við alla aðila, miða líka að (Forseti hringir.) því að draga úr þessum biðlistum þeim megin.

Svarið við spurningunni er: Jafnvel þótt ég fengi alla þá peninga sem þyrfti (Forseti hringir.) til þess að leysa þetta allt á næstu þremur mánuðum þá myndi málið ekki leysast. Það er vandi málsins. Það er kerfislægi vandi kerfisins sem við þurfum að glíma við.