Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:59]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég hef ákveðna samúð með því sem hæstv. ráðherra nefnir. Mig langar þó að halda því mjög skýrt til haga hér í þessum ræðustól og í þessari umræðu að þegar við erum að ræða þessa hluti sem snúa að börnunum, og ekki síður bara almenna hluti, til að mynda í heilbrigðiskerfinu okkar, þá er það svolítil lenska hjá ráðherrum þeirra málaflokka að koma hingað upp og fara að tala um að mönnunarvandinn sé flöskuháls. Það er auðvitað út af fyrir sig rétt. En af hverju er mönnunarvandi? Hver ber ábyrgð á mönnunarvandanum? Þarna geta menn ekki skilið á milli. Menn sem setið hafa í ríkisstjórn árum saman, flokkar sem hafa setið í ríkisstjórn og mótað þessi kerfi árum saman, jafnvel áratugum saman, geta ekki komið hér og sagt: Heyrðu, við getum ekkert gert, það er mönnunarvandi. Sjáið þið ekki að það er mönnunarvandi.? Þessi mönnunarvandi er mannanna verk. Þessi mönnunarvandi er afleiðing af því að þeir flokkar sem hafa stjórnað og þeir ráðherrar sem hafa setið í ríkisstjórn hafa ekki haft þá framsýni að byggja upp stéttir og það starfsumhverfi stétta að fólk sækist í þessar stöður og veiti þá þjónustu sem svo sárlega vantar.

Ég hvet hæstv. ráðherra mjög til dáða í að hugsa út fyrir boxið, eins og hann er þó farinn að gera með því að reyna að hanna kerfin okkar þannig að þau séu ekki svona greiningarmiðuð. Ég minni jafnframt á að við getum ekki skýlt okkur á bak við einhvern mönnunarvanda því að þessi mönnunarvandi á sér skýringar. Pólitíska skýringin á þeim vanda er sú að menn hafi ekki lagt nógu mikla hugsun, framsýni og fjármagn í að gera starfsumhverfi þessara stéttar nægjanlega aðlaðandi til að hægt sé að veita þessa þjónustu.