Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér við þessa umræðu. Mig langar til að koma inn á málefni iðn- og starfsnáms. Til upprifjunar þá bárust nú síðast í sumar fréttir af miklum fjölda nemenda eða einstaklinga sem vildu skrá sig í iðnnám eða verknám en fengu ekki inngöngu í skólana sem það nám veita. Svo ég grípi niður í viðtal við skólameistara Tækniskólans, Hildi Ingvarsdóttur, frá því í febrúar síðastliðnum, þá segir þar, með leyfi forseta:

„Frá haustinu 2018 til síðasta haust þurfti skólinn að hafna um 25% til 30% umsókna í byggingartækninámi en nú á vorönn var tæplega helmingi umsókna hafnað. Svipuð þróun hefur verið varðandi nám við Raftækniskólann en nú í vorönn var um 36% umsókna hafnað.“

Ástæða þess að ég rifja upp þessa frétt er að þetta er ekki nýtt vandamál. Þetta er búið að vera viðvarandi vandamál lengi. Núna heyrum við enn fréttir af því, eftir þessar hrikalegu fréttir fyrir rúmu ári síðan, að Tækniskólinn einn vísaði frá milli 700 og 800 nemendum sem höfðu áhuga á iðn- og verknámi og aðrir skólar eru í svipaðri stöðu, þannig að það er gríðarlegur fjöldi sem hefur þurft að vísa frá. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvaða áform eru uppi og hvernig fjármagn er nýtt til að ná árangri til að bæta þessa stöðu. Það er ekki trúverðugt þegar formaður flokks hæstv. ráðherra segist ætla að byggja 35.000 íbúðir á nokkrum árum ef ekki er ætlunin að styðja við það að iðnnám sé með forsvaranlegum hætti í landinu.