Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:06]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þori nú ekki að tala um neinar patentlausnir vegna þess að ef maður fer að nefna þær þá ræðst hv. þingmaður svo á það eins og með íbúðirnar hjá hæstv. innviðaráðherra. En eitt vil ég leiðrétta þingmanninn með hér í upphafi, hann segir að þetta vandamál sé ekki alveg nýtt af nálinni. Staðreyndin er sú að fyrir ekki svo mörgum árum síðan þá var vandamálið það að enginn sótti um í iðnnám. (BergÓ: Það er alveg rétt.) Staðreyndin er sú að iðnnámsdeildirnar voru bara hálftómar og jafnvel lokaðar. Síðan var farið í átak við að kynna iðnnám og efla það og það hefur þess vegna vaxið ár frá ári og heldur áfram að vaxa, sem er jákvætt og hefur jafnvel vaxið hraðar en við gerðum ráð fyrir, bæði stjórnvöld og samfélagið, held ég. Það sýna tölurnar. Staðan er sú að flöskuhálsinn í þessu snýst ekki einvörðungu um fjármagn vegna þess að við tókum núna þá sem hafnað var í haust og greindum hvað olli því að umræddum nemum var hafnað og fengu ekki skólavist. Í fyrsta lagi voru tölurnar aðeins lægri en fram kom í fjölmiðlum vegna þess að þetta voru oft á tíðum sömu nemendurnir eða tölfræðin var ekki alveg rétt eða hvernig sem það var, og í annan stað er ástæðan oft á tíðum kennaraskortur. Það er erfitt að fá kennara til að kenna iðnnám, m.a. vegna þess að það er gert ráð fyrir því að viðkomandi þurfi að hafa meistaragráðu og kennararéttindi. Meistari sem er búinn að starfa sem meistari í allmörg ár sækir sér ekki kennararéttindagráðu þegar hann er hættur að vinna. Við þurfum einhvern veginn að breyta þessu og við erum byrjuð á samtali um það hvernig hægt væri að gera það. Það er skortur líka í húsnæðismálunum. Þar erum við að undirbúa viðbyggingu við Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, sem vonandi kemst af stað sem fyrst, og byggingu við Tækniskólann. En við þurfum að fara í (Forseti hringir.) bráðabirgðahúsnæðislausnir við ákveðna skóla, sem ég get komið inn á í seinna svari, (Forseti hringir.) og nokkur atriði í viðbót sem ég náði ekki að nefna á þessum tveimur mínútum, af því að forseti skammtar svo naumt.

(Forseti (BÁ): Hæstv. ráðherra hefur ítrekað farið fram yfir tímann hér í þessum umræðum.)