Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra fer hressilega fram yfir í næstsíðustu ræðu kvöldsins. En ég þakka honum svarið og verð að segja að það var eitt og annað jákvætt sem þar kom fram og ég vona að vel gangi að leysa úr þessum vanda. En hæstv. ráðherra kom einmitt inn á það hér að það var farið í þessa kynningu og ég þekki þetta mjög vel, skortinn á iðnaðarmönnum á fyrri stigum og skort á nemendum í iðngreinum mörgum hverjum. En ég treysti mér til að segja að viðsnúningurinn í þessu kom til fyrir nokkru síðan. Þess vegna þykir mér í allri sanngirni stjórnvöld hafa tekið heldur seint við sér í því að tryggja aukið framboð rýma. Þetta atriði sem snýr t.d. að kröfum um kennaramenntun meistara sem koma til kennslu, hvort sem það er undir lok starfsferils eða á honum miðjum, er eitthvað sem verður að ganga í og leysa. Þeir sem eru að læra að smíða gæðahús landið um kring hafa miklu meira gagn af því að sá sem kennir þeim sé mikill og góður fagmaður en að hann hafi farið í gegnum kennararéttindin frá A til Ö til að bæta við sig þeirri námsgráðu. Þannig að ég hvet hæstv. ráðherra til að leggja sitt af mörkum og mér heyrist hann nú ætla að gera það hvað það varðar að höggva a.m.k. á þennan hnút. Það hlýtur að vera mjög mikilvægt upp á að komast á sprett með að fjölga þessum rýmum því að það mun raunverulega gera samfélagið okkar betur búið til að byggja upp til framtíðar.