Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Svo að ég afgreiði brennivínið fyrst þá tel ég að sú stefna sem við höfum rekið í áfengismálum, þar með talið hátt áfengisgjald, sé góð, það er mín skoðun, og ekki óeðlileg. Það má segja að þetta snúist ekki eingöngu um tekjuöflun heldur er þetta líka skattlagning á vöru sem á engan hátt getur talist nauðsynjavara.

Um auðlindamálin vil ég segja: Veiðigjöldin eru áætluð 9,8 milljarðar og þar af 1,5 vegna verðmætagjalds á fiskeldi, sem er auðvitað hluti af þessari púllíu. Þau voru 7,9 milljarðar árið 2021 og 4,9 milljarðar árið 2020. Við sjáum því að bætt afkoma greinarinnar er að skila auknum tekjum. Gjöldin eru afkomutengd og sú breyting var gerð, síðast þegar við breyttum fyrirkomulagi veiðigjalda, að álagningin var færð nær í tíma og töluverð vinna lögð í að greina hvað eðlilegt sé að útgerðarfyrirtækin greiði í veiðigjöld því að það eru að sjálfsögðu ekki einu gjöldin sem þau greiða til ríkisins.

En við skulum líka segja: Það er allt undir í þeirri stefnumótun sem nú á sér stað í sjávarútvegsmálum og hæstv. matvælaráðherra kom mjög skýrt inn á það í ræðu sinni undir umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Gjaldtakan er ekki undanskilin í þeirri stefnumótun. Hér fór fram ítarleg umræða þar sem niðurstaðan varð 33% gjald af gjaldstofninum. Gjöldin voru færð nær í tíma, eins og ég nefndi hér áðan. Útreikningarnir voru einfaldaðir. Það var sett á álag á uppsjávarveiðar. Það má velta fyrir sér, og á það hef ég ítrekað bent: Er nægilega vel búið um það? Við sjáum miklar sveiflur í veiðiráðgjöf á loðnu þar sem við förum frá því að engin loðna er veidd árið 2020 í metráðgjöf á þessu ári. Það væri ákjósanlegt ef hægt væri að jafna sveiflurnar út með einhverjum hætti og við vitum líka að verðmæti afurðanna er mjög mismunandi.(Forseti hringir.)

Ég segi: Gjaldtakan á að vera til stöðugrar skoðunar. Við fórum í breytingar sem ég taldi góðar fyrir (Forseti hringir.) örfáum árum. Viljum við ganga lengra? Ég er svo sannarlega opin í þá umræðu.